<$BlogRSDURL$>

þriðjudagur, nóvember 30, 2004

...Barn grét!!!
"Þegar fréttin um skilnað þeirra Bubba og Brynju barst út í gær var sem þögn slægi á þá sem heyrðu. Konur gripu fyrir andlit sitt, karlmenn hristu höfuð og barn grét."
Þetta er orðrétt úr helgarblaði DV!!!
Ég veit ekki alveg hvort þetta eru eðlileg viðbrögð almennings við þessum fréttum???
Mér finnst þetta grátandi barn eitthvað einum of, ekki nema það hafi verið þeirra eigið barn...
Eða kannski varð barnið hrætt við foreldra sína þar sem þau voru að engjast yfir raunum Bubbans og Brynjunnar með andlitsgripum og höfuðhristingum..... mar veitiggi!!!

mánudagur, nóvember 29, 2004

Sundurlaus og óhnitmiðuð færsla

Sælir kæru sveitungar og þið hin!!!

Ég rakst á einstaklega skemmtilega bók áðan sem var miklu uppáhaldi hjá mér þegar ég var lítil hnáta. Þetta var ein af bókunum um Rasmus klump.... muniði eftir honum, þetta var sona bangsi í rauðum stuttbuxum með hvítum doppum og honum fylgdi heil hersing að skrýtnum vinum. Má þá meðal annars nefna rostunginn Skeggja og mörgæs sem ég held að heiti Pingó..... Anyways, nóg um þá félaga og mér er skítsama hvort þið munið eftir þeim eða ekki... Þetta eru samt rosa hressir gaurar sko og ég mæli með þeim.

Ég er að spá!!! ef maður frestar nógu lengi að gera eitthvað sem maður þarf að gera, ætli það gleymist þá og hverfi að lokum, eða kannski að málin bara reddist án þess að ég komi nálægt þeim??? Ég er soldið að að rannsaka þetta mál um þessar mundir... Ég myndi spyrja vísindavefinn ef hann væri ekki bara með eitthvað diss og svararaði mér ekki þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir.

En jæja nú ætla ég að klæða mig í einstaklega hlýju kindanáttfötin sem ég fékk frá The Melógells í afmælisgjöf. Sona munaðarvöru hef ég ekki átt síðan ég var 5 ára. Náttföt sem samanstanda af buxum og jakka. Á náttfötunum í den voru reyndar endur og þau voru mér einstaklega kær, ég gleymi aldrei þeirri sorgarstund þegar mamma ákvað að þau væru orðin of lítil á mig og gaf þau í söfnun handa fátækum börnum í Afríku sem og Mexíkanaskóna mína..... Snökt.... snökt
En heppin ég!!!! nú á ég kindanáttföt.....

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Í dag á ég afmæli!!!
Fyrir nákvæmlega 22 árum síðan kom óþolinmæði mín fyrst í ljós er ég ruddist í heiminn þremur vikum fyrir áætlaðan komutíma. Þá var ég alveg agnarpínkuponsulítil, bara rétt rúmlega 8 merkur og það hefði mátt búa um mig í skókassa hef þess hefði þurft. En síðan þá hafa mörg vötn runnið til sjávar og hef ég heldur betur stækkað og gildnað. Þá hefur óþolinmæði mín einnig aukist til muna... Og í dag telst ég líklega bæði frek og óþolinmóð.
Ég á semsagt ammili (afmæli) í dag og það þykir mér ótla gaman...

Ég hef sosum ekkert annað að segja sko... ætlaði bara að minna ykkur á að ég ætti afmæli í dag, svo ef einhver er að gleyma því þá er ég ennþá að taka við kveðjum :)

Heyrumst síðar...


þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Skemmtilegur lyfjakokteill... Skál!!
Á síðasta klukkutíma hef ég tekið inn ógrynni af allskyns lyfjan og ólyfjan. Má þá meðal annars nefna: tvær íbúfen töflur , hvor um sig 400 mg og fyrir þá sem ekki eru glöggir í reikningi þá erum við að tala um 800 mg af íbúprófenum. Þær eru teknar til að reyna að slá á þrálátan höfuðverk sökum bólgna í ennisholum. Þá drakk ég eitt glas af vatni blandað með sólhatti í freyðandi formi eða með öðrum orðum 1000 mg af echinacea extract. Svo annað eins glas barmafullt af freyðandi 1000 mg C-vítamíni með jarðarberjakeim. Og af því að ég er búin að hósta upp úr mér öðru lunganu og hluta af lifrinni í dag þá tók ég inn þrjár teskeiðar af pektólíni eða difenhýdramínklóríði, sem er þríhyrningmerkt hóstastillandi mixtúra, til að reyna að halda hinu lunganu á sínum stað og restinni af lifrinni í skefjum. Ofan í þetta allt saman fékk ég mér svo tvö nezeril sprey eða oximetazolinhydraklorid í hvora nös.
Ég er einmitt núna á öðrum degi mjög stíflaðs nefs og er langt komin með eitt stykki regnskóg í formi snýtibréfa.
Þetta difenhýdramínklóríð er samt ekki að gera neitt fyrir mig og ég er með mikinn erting í lungnapípunum sem virðist frekar vera að aukast frekar en hitt. Og hóstinn er eftir því.
Núna er ég að sötra heitt kakó til að reyna að mýkja hálsinn en það tókst ekki betur en það að ég skaðbrenndi mig á tungubroddinum og stakk teskeiðinni á sömu andrá hálfpartinn upp í augað á mér.... Stundum skil ég ekki hvernig mér tekst að gera suma hluti....
En þetta kvef sem er búið að vera að grassera í mér á annan mánuð er semsagt núna að líta dagsins ljós af einhverri alvöru... Það valdi sér einstaklega skemmtilegan tíma til þess atarna.

Í dag leyfði ég barninu innra með mér að yfirhöndinni og hóf formlega hlustun á jólalög...

Og eitt enn sem ég verð að deila með ykkur... Djöfull er ég sátt við hvað Judging Amy er að verða áhugaverður þáttur aftur. Thank god að hún dömpaði þessum Stu við altarið og ég er nokkuð viss um að Maxine og Alan, gaurinn á meðferðarstöðinni ná saman. Ohhh ég get varla beðið þangað til í næstu viku....

mánudagur, nóvember 22, 2004

Þetta er líklega löng og ruglingsleg færsla....

Bráðum verð ég 22 ára...
Jæja í tilefni þess að ég verð 22 ára eftir þrjá daga þá fannst mér við hæfi að setjast niður og íhuga aðeins. Ég hef í rauninni verið að íhuga það síðustu daga ef ekki vikur, hver ég er í raun og veru. Þetta kann að hljóma klisjukennt, að ég sé að reyna að ná sambandi við mitt innra sjálf eða að finna sjálfa mig. En ég er ekki í neinum þannig “yfirnáttúrlegum” pælingum. Málið er bara að ég er frekar ráðvillt þessa dagana, veit ekkert hvað vil, ég er eirðarlaus, nenni ekki að læra, nenni varla að borða, nema að það sé félagsleg athöfn og mér finnst ég í rauninni ekki vera að gera neitt merkilegt. Og staðreyndin er sú að mig langar virkilega að gera eitthvað merkilegt, mig langar að skipta sköpum. Ég á það til að taka allt inn á mig og líður stundum eins og öll vandamál heimsins hvíli á herðum mínum. Sumir segja að ég sé ofurdramatísk og aðrir segja að ég sé case. Dæmi hver fyrir sig......

Tilefni til að gera breytingar
Semsagt vitandi það ég veit ekki hvað gera skal þá ákvað ég að reyna að íhuga og reyna þannig að komast að einhverri niðurstöðu.
Ég er mjög vanföst manneskja og er frekar illa við breytingar. Flest sem ég geri þarf að vera fyrirfram ákveðið og ef ég veit ekki hvað gerist næst þá líður mér frekar óþægilega, þar af leiðandi er mér td ekki vel við óvissuferðir. Að þurfa að lifa í einhverri óvissu hefur afar slæm áhrif á sálartetrið í mér. Vanafestan lætur mig líka oft hjakka í sama farinu, jafnvel þó að ég sé óánægð í því fari. En núna, bara á einum mánuði hef ég verið að go wild í breytingum svo ég er pínku nervös. Ég er orðin dökkhærð í staðinn fyrir að vera ljóshærð eins og ég hef verið síðan ég var 16 ára, svo er ég hætt að vinna í búð, eins og ég hef gert síðan ég var 16 ára. Og svo eftir áramót verð ég nemandi í stjórnmála- og sagnfræði í staðinn fyrir að vera bara stjórnmálafræðinemi. Þó að þetta hljómi ekki sem stórvægilegar breytingar þá eru þetta afar stór stökk fyrir mig.

Skref í rétta átt??
Flestir sem ég hef hitt segja að mig klæði betur að vera með dökkt hár heldur en ljóst, það gefur mér meiri svip, og þar af leiðandi dreg ég þá ályktun að þar hafi gert rétt. Eitt skref í rétt átt.....
Ágæt vinkona mín tilkynnti mér reyndar þá alkunnu staðreynd að strákar vilja frekar ljóst hár. En þar sem ég er hætt í eiginmannsleit þá skiptir það mig engu máli. En samt... ef strákur vill mig ekki af þeirri ástæðu að ég er dökkhærð, þá vill ég hann ekki heldur.... takk fyrir... Tvö skref í rétta átt....
Þetta með að skipta um vinnu... það vekur hjá mér blendnar tilfinningar, ég eignaðist mína bestu vini í Melabúðinni, þar kynntist ég loksins, eftir 19 ára tilveru, fólki á svipaðri bylgjulengd og ég, slíkt fólk er frekar vandfundið...en mig langaði samt að breyta til og prófa eitthvað annað en verslunarstörf.... Hænuskref í rétta átt....
Þetta með námið hefur verið að angra mig síðan ég byrjaði í Háskólanum fyrir rúmlega tveimur árum. Þegar ég nefndi að mig langaði að læra sagnfræði eða stjórnmálafræði þá setti fólk ( þá meina ég ættmenni og jafnvel vinir) upp svip og sagði: hvað ætlarðu að gera við það nám, er nokkuð upp úr því að hafa??? Svo í ósjálfstæði mínu hugsaði ég með mér: nei líklega ekki, það er ekkert upp úr því að hafa. Og fór svo í sálfræði sem ég hafði akkúrat ekki neinn áhuga á hvað sem ég reyndi.... ég hætti og fór í stjórnmálafræði, ok það er ágætt en þar er samt ekki verið fullnægja minni réttu fróðleiksþörf. Nú er ég að reyna að vera eins sjáfstæð og ég mögulega get og hætta hlusta að nöldrið í gömlum ættmennum um hvað sé praktískt og hvað ekki. Svo ég skráði mig í sagnfræði líka.... múhahaha.... það er seinni tíma vandamál hvað ég ætla svo að gera við þetta “ópraktíska” nám mitt.... Þrjú skref + eitt hænuskref í rétta átt.....

Kratarósin sem kom lífi mínu í farveg....
Í þessum litlum skrefum mínu fram á við í lífinu er þó ekki að finna lausn við vandamálum heimsins, en um leið og mér líður betur ætti ég að geta látið gott af mér leiða.....
Ég villtist þó nokkuð af leið í þessari íhugun minni og ég tapaði næstum félagshyggjuhugsuninni sem mér hefur alltaf fundist vera hin rétta hugsun og hef lifað samkvæmt því. Lifi ég í blekkingu, hugsaði ég með mér. Ég fór jafnvel að efast um að ég væri vinstri manneskja í pólitík eins og ég hef talið mig vera síðan ég fór að hafa meðvitaðan áhuga á stjórnmálum. Sem má segja að það hafi gerst á táknrænan hátt þegar ég var svona átta ára, þá var mér gefin kratarós af einhverjum hörðum krata sem ég man ekki lengur hver var. Kratinn sagði við mig, þar sem ég var í óþolinmæði minni að bíða eftir pabba í ónefndri verslun, eitthvað á þá leið: svona undurfögur stúlka verður nú að fá fallega rauða rós. Þá varð ég ákaflega feimin en þáði samt rósina með semingi. Þessu atviki fylgdi mikið spurningaflóð yfir karl föður minn, hvers vegna í veröldinni þessi maður stæði þarna og gæfi fólki rósir. Faðir minn hefur aldrei verið ræðinn maður og sem átta ára barn fékk ég ekki góð svör. Hann talaði bablaði bara eitthvað um kosningaáróður og krata.... á einhvern undarlegan hátt var það samt var nóg til að vekja áhuga minn á pólitík. Ég hélt sko með Rósaflokknum. Rósina þurrkaði ég og hún enn þann dag í dag fastan sess í þurrkuðu rósabúnti á heimili móður minnar.
Þessar vangaveltur um pólitíska stöðu mína stöldrðu þó ekki lengi við í huga mínum. Ég sá ljósið aftur áður en svartnætti einstaklins- og frjálshyggjunnar náði tökum á mér.
Það er samt ótrúlega gott að íhuga svona aðeins öðru hverju, jafnvel þó maður verði næstum enn ráðvilltari fyrir vikið.
Því í rauninni komst ég ekki að neinni niðurstöðu í þessum pælingum mínum....oh well og enn bíða öll vandamál heimsins eftir að ég leysi þau....
Ég lít samt þannig á nýju vinnuna mína, á frístundaheimili ÍTR, þar sem ég er að kljást við litla ómótaða einstaklinga og reyna að leggja þeim lífsreglurnar, þar sem foreldrar alltof margra þeirra hafa ekki tíma til þess, þá er ég að gera eitthvað merkilegt. Við nánari athugun þá þykir mér það alveg stórmerkilegt. Svo nú er ég miklu sáttari en áður, allavega í bili.

Takk fyrirþriðjudagur, nóvember 16, 2004

Feigur er brislaus maður!!! eða hvað???
Jæja ég er nú aðeins að sjá ljósið aftur eftir biturleikaskeiðið er ég minntist á í síðustu færslu. Ég komst að því að manni líður betur ef maður reynir að sjá það góða í fólki í stað þess að einblína á mistökin sem það gerir. Svo er gott að fyrirgefa....

Annars hef ég sosum ekkert að segja og það eru engar djúpar pælingar sem ég þori að deila með ykkur án þess að vera talin geðveik.
En ég er frekar ósátt við þennan prumpu Vísindavef, sem á að svara erfiðum spurningum. Ég er búin að senda inn tvær fyrirspurnir um hvort maður geti lifað eftir að brisið hefur verið fjarlægt. Og ekki heyrist múkk frá þeim. Ég fæ ekki einu sinni email, hvað þá að spurningin mín birtist á forsíðu Háskólavefsins. Ég meina þeir svara spruningum á borð við: getur maður dáið úr leiðindum, td í dösnkutíma og hvað gerist ef maður hleypur stanslaust í hringi í einn sólarhring. Þá finnst mér mín spurning mun vísindalegri.... Og ég vil fá svar.... Það er nauðsynlegt til að geta útkljáð gamalt deilumál
Ein vinkona mín fékk meira að segja svar við spurningunni: akkurru fær maður lítið gubb í hálsinn? Svarið var reyndar eitthvað á þá leið: Okkur hjá Vísindavefnum þykir þessi spurning ekki heyra undir vísindalegt svið okkar.... En það var þá allavega svar....
Ef einhver læknsifræðilega menntaður rekst á þessar pælingar mínar um brisleysi þá má sá hinn sami svara mér um hæl.
Ég er meira að segja búin að velta upp þeirri hugmynd að gera mér upp einhverja kvilla svo ég geti farið til heimilislæknisins míns og laumað þessari spurningu að meðan ég ræði um einkenni, hins ímyndaða kvilla.


mánudagur, nóvember 15, 2004

VARÚÐ!! Þetta gæti orðið bitur færsla...
Um helgina hætti ég nebbla formlega leit minni að verðugum eiginmannskandídat. Mér varð það skyndilega ljóst að það er sennilega enginn þess verðugur að fá mig sem eiginkonu!!! Takk fyrir!!
Þetta kann að hljóma í eyrum sumra eins og ég líti stórt á sjálfa mig... en nei það er ekki málið félagar, þvert á móti.
Ég komst nebbla að þeirri bitru staðreynd um helgina að flestir þeir er karlmenn þykjast vera eru það eigi. Nibbs kæru saklausu stúlkur varið ykkur á góðlegum drengjum sem þykjast vera vinir ykkar og slá ykkur gullhamra. Þeir eru flestir úlfar í sauðagærum og þeir munu í 90% tilvika koma illa fram við ykkur og særa ykkur þannig að þið verðið álíka bitrar og ég....
Þessi niðurstaða mín er sko sannarlega ekki einungis byggð á atburðum síðustu helgar heldur hef ég verið að stúdera hálfgerða mannfræðirannsókn í þessum efnum. Sú rannsókn var þó gerð af mér gegn vilja mínum.
En ef þið lendið í slíkum sauðagæruúlfum þá getur Smáralindarferð í góðra vina hópi verið ágætis lækning, þá er nauðsynlegt að kaupa sér eitthvað fallegt. Svo er rómantísk gamanmynd nokkuð skotheld, það er að segja ef hún endar vel. Það fær mann til að hugsa: já, það er eitthvað gott og fallegt til í heiminum.
Sumum þykir gott að innbyrða óhóflega mikið af sælgæti eða mat, en fyrir mína parta þá er neysla góðgætis yfirleitt félagsleg athöfn og til að framkvæma hana verð ég að vera í góðu andlegu jafnvægi. Þannig að ef ég lendi í lífsreynslu er ég lýsti hér að ofan þá frekar svelti ég næstum í hel. Það gerist þó óafvitandi þar sem ég finn ekki til hungurs þegar mér líður illa.
Svo mæli ég með að hlusta á Weezer, bláa diskinn. Af einhverjum ástæðum fæ ég alltaf vellíðunartilfinningu eftir eitt rennsli af disknum...

Læt ég nú staðar numið í biturleika...

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Bumbulíus.is
Jæja nú þarf ég að fara að hefja aðhaldsaðgerðir, ég er nebbla að verða bumbulíus.... Buxurnar mínar eru flestar orðnar óþægilægar og ég hef ekki efni á að fjarfesta í nýjum. Og bolirnir mínir eru farnir að rúllast upp og flettast yfir bumbuna ef ég held ekki maganum inni. Þetta er ekki gaman....
Samt fékk ég 10 í einkunn fyrir stinnleikann á rassinum mínum um helgina :) ég sel það reyndar ekki dýrara en ég keypti það, pilsið mitt var frekar þröngt... Eða kannski virkar nýja Dove firming kremið mitt svona vel???
Jahhh það er ekki mitt að dæma um það félagar.... það er verk annarra að meta rassalinginn á mér.

Það er spurning hvað maður getur gert í þessum aðhaldsmálum, svo er nebbla prófatíðin að hefjast og sona. Ég man sko að í síðustu jólaprófatíð át ég á mig 5 kíló takk fyrir. Ég var eins og rúllupylsa í jólakjólnum sem ég keypti fimm kílóum áður.

Kannski að ég hætti að borða nammi... eða ekki
Kannski að ég hætti að drekka bjór.... tja.... eehhm... neibb!
Kannski að ég hætti að vinna í búð.... jahh hver veit nema það bjargi málunum, á einni laugardagsvakt innbyrðir maður að meðaltali 4000 kalóríur.
Kannski ég hætti að sitja heima á kvöldin og éta allt sem ég kemst í.
Kannski ég sleppi því að kaupa nammi í magnpakkningum í Bónus, bara af því að það er svo ódýrt.
Kannski ég hætti því að fá alltaf extra mikið af ostasósu á nachosið þegar ég fer í bíó.
Kannski ég hætti að kaupa mér Nonnabita á föstudögum og Hlöllabát á laugardögum.
Eða kannski að ég éti bara allt sem mér sýnist og drullist til að hreyfa mig eitthvað...

Kannski að ég verði bara eins og ég er og hætti að hafa áhyggjur af örum vexti mínum á þverveginn...

Ohh well ég geri allavega ekkert í þessu í kvöld, ég held hugsi þetta aðeins yfir einum hamborgara eða svo....
föstudagur, nóvember 05, 2004

Dökkhærð!!!
Kæru félagar til sjávar og sveita, ég heiti Sólrún og ég er dökkhærð. Já ég er orðin DÖKKHÆRÐ.... Ég hleypti gamalli vinkonu í hárið á mér og hún heimtaði að fá að gera róttækar breytingar, sem ég samþykkti... Og ég er bara ótla feen

Mér fannst einmitt tilvalið að gera eitthvað nýtt þar sem ég er að reyna að stíla inn á nýjan markað eiginmannsefna. Nýtt útlit nýr markhópur!!! það er mitt mottó.

Ég ætla að testa þetta í kvöld og annað kvöld. Ég læt ykkur vita um framgang mála.

Þetta var aum færsla hjá mér, þetta var meira svona tilkynning.... anyways...
Sælir að sinni félagar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?